HÖNNUN

Hönnun nýbyggingar á Vegamótastíg 7 og 9 er tilraun til að líta húsvernd í nýju ljósi og leita sátta á milli hins gamla og nýja. Í stað þess að hverfa alveg, eða standa sem illa gerður hlutur í skugga nýrrar byggðar, er húsinu lyft upp á stall, í heiðurssæti, sem minning um liðna tíð. Húsin tvö, annað horfið og hitt í uppnámi vegna aðstæðna og nýs skipulags eru nýtt sem tækifæri til þess að skapa eitthvað sérstakt í byggðinni, sem á sér þó sterkar rætur í sögu og menningu þessarar borgar. Eftirlegukindurnar úr fortíðinni ganga í endurnýjun lífdaganna, verða að einhverju óvæntu og smágerðu sem vekur forvitni og áhuga. Yfirbragð miðbæjarins býr enn sem komið er yfir fjölbreytileika og slík einkenni ber að styrkja með öllum ráðum.

Endurreisn (eða uppreist) gömlu húsanna er í andstöðu við þá einsleitni og kerfishugsun sem svo auðveldlega nær yfirhöndinni í byggðu umhverfi. Þessi afstaða dregur ekki úr nauðsyn þess að standa vörð um varðveislu gamalla húsa með sögulegt gildi. Þau eru ómetanleg verðmæti og gefa borginni sanna og trúverðuga ímynd. Fyrirhuguð nýbygging á lóðunum Vegamótastígur 7-9 verður fimm hæðir með inndregnum efstu hæðum auk riss og kjallara. Fólkslyfta verður í húsinu. Heildarflatarmál nýbyggingarinnar er 1658,0 m2, flatarmál íbúða er 945,1 m2, rými á jarðhæð og í kjallara er samtals 541,8 m2 auk hlutdeildar í sameign samtals 171,1 m2.

Á jarðhæð er gert ráð fyrir verslunar- og veitingarými með glerveggjum að mannlífi götunnar, sem tengir saman verslunarsvæðin við Laugaveg og Skólavörðustíg. Þetta er kjörstaður með breikkaðri gangstétt og trjágróðri til suðurs. Íbúðir eru á fjórum efri hæðum. Nýbyggingin verður með óvenju góða hljóðeinangrun í útveggjum svo húsið þjóni tilgangi sínum sem ákjósanlegt íbúðarhúsnæði í hjarta miðbæjarins. Á þaki hússins er grænn garður þar sem gömlu húsin eru endurbyggð. Segja má að garðurinn sé framhald gróðurs á svölum húss Máls og menningar og í anda umræðu um græn þök í borgum og viðleitni til að skapa vistvænar borgir. Stiga- og lyftuhús næst Grettisgötu 3 er dregið til baka og mótað eins og steinrunnið eldra hús með mænisþaki úr gleri. Þótt það tilheyri nýbyggingunni tekur það þátt í smáhúsaþyrpingunni á þakinu og skilin milli hins gamla og nýja skarast. Með þessu er nýbyggingin löguð að formi nágrannahússins að Grettisgötu 3 sem er sambyggt við hana. Kynning á verkinu frá 2008 með teikningum (.pdf).