FRUMKVÖÐLA- OG FRÆÐASETUR
Heiti verkefnisins og hússins sjálfs, Vegamótahús, er sótt í bréf Jóhannesar Kjarvals til Ásgríms Jónssonar 1953 og hæfir vel því markmiði að í húsinu verði þegar fram líða stundir vegamót almennings og fræði-, vísinda- og listamanna. Með þessu er leitast við að virða þau menningarverðmæti sem felast í sögu gamla hússins á Vegamótastíg 9 og ávaxta þau.
Gamla íbúðarhúsið, sem hefur verið í eign sömu fjölskyldu frá upphafi, á sér merka sögu og menningarsöguleg verðmæti þess eru ótvíræð. Þar málaði Kjarval í suðurstofunni „þar sem sólin bjó“ þegar hann var leigjandi hjá hjónunum á Efri-Vegamótum, Davíð Jóhannessyni og Guðrúnu Skaftadóttur, 1909-1911, og Halldór Guðjónsson frá Laxnesi var þar heimagangur á unglingsárum. Í Sjömeistarasögu lýsir hann lífinu í húsinu, m.a. því þegar hann sjö ára gamall horfði á Kjarval „mála dreka úr gulli á svart silki“ og samdi síðar fyrstu sögu sína, Aftureldingu, sem nú er glötuð. Þessari menningarsögu er ætlað að setja svip á innri hönnun hússins og frágang hótelíbúðanna.
Í umræðu um hvað leggja beri áherslu á við endurreisn efnahagslífsins hefur verið minnt á mikilvægi þess að hlú að nýsköpun og frumkvöðlastarfi. Í menntastofnunum og atvinnulífi þykir nú eftirsóknarvert sem aldrei fyrr að leiða saman ólíka strauma, þá verði til hringiða, frjó og gjöful, vaxtarmagn nýsköpunar. Vænta má hennar í Vegamótahúsi.
Í Vegamótahúsi verður leitast við að skapa aðlaðandi, örvandi og frjótt umhverfi fyrir þá sem þangað vilja koma. Auk hótelíbúðareksturs í húsinu er því ætlað öðrum þræði að verða vegamót fræði-, vísinda- og listamanna sem fást við rannsóknir, kennslu og sköpun á sviði bókmennta, sjónlista, tónlistar, tækni og vísinda með málþingum, tónleikum, sýningum og upplestri ásamt gestaíbúðum. Um leið yrði húsið samkomustaður frumkvöðla til nýsköpunar, til að ræða og móta góðar hugmyndir og vinna að framgangi þeirra með aðstöðu til funda og fyrirlestra en einnig til að slaka á í góðra vina hópi.
Vegamótahúsi er ætlað að rækta tengsl við margvísleg samtök sem einnig stuðla að stefnumóti og úrvinnslu hugmynda á sviði lista, vísinda og tækni. Meðal þeirra eru: Innovit – Klak, Innovation Center, Iceland og Leonardo/ISAST.