ÞROSKATÍMI LISTAMANNS - KJARVAL
Snemma á 20. öld bjuggu hjá fjölskyldunni á Vegamótastíg 9 tveir ungir menn sem síðar urðu þjóðþekktir listamenn, Jóhannes Sveinsson (1909-1911) og Halldór Guðjónsson frá Laxnesi (1914-1916). Hægt er fræðast um dvöl þeirra í húsinu í ævisögum þeirra og skrifum þeirra sjálfra, m.a. bréfi Jóhannesar til Ásgríms Jónssonar 1953 og Sjömeistarasögunni sem kom út 1978.
„Þegar Ásgrímur Jónsson settist að í Reykjavík 1909, alkominn heim eftir margra ára dvöl erlendis við listnám, opnaðist Jóhannesi sá möguleiki að fá tilsögn í málun. Ásgrímur segir í endurminningum sínum frá fyrstu kynnum sínum af Jóhannesi. Fljótlega eftir að hann flutti í Vinaminni kom til hans alvarlegur ungur maður, hár og grannvaxinn, sem leit út fyrir að geta verið sjómaður. Ungi maðurinn falaðist eftir kennslustundum í teikningu og málverki, en Ásgrímur færðist undan. Hann sá strax að gestinum urðu þetta sár vonbrigði og fann að honum var námið mikið kappsmál. Ásgrímur lét því tilleiðast og þeir komust að samkomulagi um að hann kæmi heim til Jóhannesar og segði honum til. Ásgrímur segir að Jóhannes hafi þá verið alger byrjandi, hann hafi reynt að halda honum stranglega „við efnið“ og hafi það gengið sæmilega. En nokkuð fannst honum bera á því að Jóhannes vildi fara sínu fram og kveðst ef til vill hafa verið helst til kröfuharður. Í bréfi til Ásgríms minnist Jóhannes þessa tíma: „Ásgrímur / Minn fíni – gamli kennari – gamli – þýðir að það er svona langt síðan að þú gekkst til mín í Vegamótahús – myndin sem ég málaði undir þinni umsjá – er hjá Kjartani Thors – það er uppstilling – vatnskarafla – bækur – og eirbikar – á – eða – við rauðan dúk á borði.“ Kjarval, 2005
Kjarval fluttist til Reykjavíkur við upphaf 20. aldar. Þá var höfuðstaðurinn mjög frábrugðinn því sem nú er. Um aldamótin bjuggu í Reykjavík tæplega 7000 manns, flestir í torf- eða timburhúsum. Fyrsta myndlistarsýningin á Íslandi var haldin árið 1900. Þá sýndi Þórarinn B. Þorláksson (1867-1924) málverk sín. Þórarinn var fyrsti Íslendingurinn sem fór til útlanda gagngert til þess að læra listmálun, en Ásgrímur Jónsson (1876-1958) varð fyrstur íslendinga til að gera myndlistina að aðalstarfi sínu. Kjarval naut tilsagnar beggja þessara manna. Heimild: www.listasafnreykjavikur.is