GÖMLU HÚSIN

Gömlu húsin við Vegamótastíg, sem ganga í endurnýjun lífdaganna sem hluti nýbyggingarinnar, eru góð dæmi um þróun húsagerðar í Reykjavík í þann mund sem bærinn var að vakna. Við Vegamótastíg austanverðan stóðu þrír steinbæir um aldamótin 1900, nefndir Vegamótabæir, efstur þeirra síðar nefndur Herdísarbær eftir Herdísi Símonardóttur sem bjó þar síðast. Stígurinn var kenndur við vegamót leiðarinnar inn Laugaveg annars vegar austur í Þvottalaugar í Laugardal og yfir Skólavörðuholt hins vegar. Áður en þessum litla stíg var gefið þetta nafn var bakarabrekkan nefnd Vegamótastígur, en heitir nú því virðulega nafni Bankastræti þótt enginn sé þar lengur bankinn.

Árið 1904, í marsmánuði, fær Páll Guðmundsson trésmiður frá Efri-Vegamótum leyfi til að byggja hús á lóð sinni norðan við væntanlegt framhald Grettisgötu sem þá náði einungis að Klapparstíg. Stærð húss leyfð 11x10 álnir og skúr norðan við húsið 3½x4 álnir. Fyrsta brunavirðingin á húsinu er frá 31. september 1904; þá er því lýst þannig: Húsið er byggt af bindingi klætt utan með plægðum 1“ borðum, pappalistum og járni þar yfir með járnþaki á plægðri 1“ borðsúð. Pappi er utan á binding og fyllt í binding með hálmi. Húsið er hæð og ris og kjallari undir því öllu. Á hæðinni eru þrjú íbúðarherbergi, eldhús, gangur og tveir fastir skápar, sem allt er þiljað. Tvö herbergin eru með pappa á veggjum og loftum og máluð, þar eru tveir ofnar og ein eldavél. Kjallari er 3¾ alin á hæð og skiptist til helminga í geymslurými, gang og smíðarými. Við vesturenda hússins er inn- og uppgönguskúr, sem er byggður eins og húsið, í honum eru tveir gangar og einn skápur.

Vegamótastígur 7 er nú auð lóð. Þar stóð áður lítill steinbær, fyrrnefndur Herdísarbær, sem var rifinn í júní 1964 áður en gatan var breikkuð. Steinbærinn var byggður 1893 og var 13x7 álnir með kjallara undir öllu húsinu. Ári síðar var viðbyggingu úr timbri bætt við sunnan við húsið og skúr norðan við það árið 1897. Húsið var einn af mörgum steinbæjum á holtinu, en þeir sem næstir stóðu voru hús Þorbjargar Sveinsdóttur, Tobbukot, við Skólavörðustíg og Hábær (Rönkubær) sem stóð rétt innan við Grettisgötu 3, handan götunnar. Báðir þessir bæir eru nú varðveittir í Árbæjarsafni en Herdísarbær er horfinn.