FÓLK OG FYRIRTÆKI
Nýbyggingin rís í miðju hringiðu reykvísks borgarlífs þar sem stutt er í alla þjónustu, verslanir og veitingahús með verslunargöturnar Laugaveg og Skólavörðustíg hvora til sinnar handar. Á fjórða hundrað verslanir eru í miðborg Reykjavíkur. Hvergi á landinu eru fleiri og fjölbreytilegri verslanir saman komnar á einum stað. Mikið er um sérverslanir, listmuni og íslenska hönnun í fatnaði og skartgripum. Í flestum þessara verslana er mjög persónuleg þjónusta, enda algengt að eigendur og hönnuðir séu sjálfir við afgreiðslu. Hér er lítið brot þeirra fjölbreyttu verslana sem finna má steinsnar frá Vegamótahúsi.
Bókabúð Máls og menningar er meðal rótgrónustu verslana í miðbænum. Verslunin, sem nú er rekin að Laugavegi 18 og ber þetta söguríka nafn,er þó ekki sú sögufræga verslun sem tengd er samnefndu bókaforlagi og var sameinuð Pennanum/Eymundsson í viðskiptaumróti bókaútgefenda skömmu eftir aldamót. Sú verslun er nú til húsa að Skólavörðustíg 11 en geta má þess að búðin var fyrst opnuð á Laugavegi 19 árið 1940 en flutti á Skólavörðustíg 21 árið 1952 áður en hún var opnuð í nýbyggingunni Laugavegi 18 árið 1961 sem bókaforlagið hafði forgöngu um að reisa.
Handan Laugavegar við enda Vegamótastígs er elsta úrsmíðaverkstæði landsins, Michelsen, sem gengið hefur í endurnýjun lífdaganna með glæsilegri nýsmíði íslenskra gæðaúra undanfarin ár. Þangað leggja erlendir ferðalangar gjarnan leið sína enda er verslunin þekkt fyrir hágæðavöru, íslenska og erlenda, á hagstæðu verði.
Verslun Lyfju við horn Laugavegar og Vegamótastígs er í hugum margra enn það Laugavegsapótek sem Stefán Thorarensen stofnaði árið 1919, en hann var brautryðjandi í lyfjaframleiðslu hér á landi. Sonur hans, Oddur Thorarensen, rak apótekið lengi og bauð þá nýlundu fyrstur að senda lyf heim. Lyfja hefur rekið Laugavegsapótek síðan 1996 og mörgum finnst gott að vita af lyfjaverslun sem enn er á sama stað.
Hljómplötuverslunin 12 Tónar hóf starfsemi 1998 og var tekið fegins hendi af tónlistarunnendum. Búðin varð fljótt menningarmiðstöð tónlistarmanna, má þar nefna Björk, Sigur Rós og Múm auk skara tónlistarfólks á sviði sígildrar tónlistar og samtímatónlistar. Sumarið 2013 birtist grein um búðina í hinu víðfræga tónlistartímariti Gramophone undir yfirskiftinni „The best record store in the world?“